Fara á efnissvæði
Til baka

Blaðamannaverðlaun í húsi

þriðjudagur, 5. apríl 2022
Blaðamannaverðlaun í húsi

Okkar fólk stóð á verðlaunapalli um liðna helgi þegar Blaðamannaverðlaun Íslands voru veitt.

Sunna Karen Sigurþórsdóttir, fréttamaður á Stöð 2, Bylgjunni og Vísi hlaut verðlaun fyrir umfjöllun ársins. Verðlaunin fékk Sunna Karen fyrir umfjöllun um tilefnislausar lífslokameðferðir af hálfu læknis á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglu og landlækni og hjá heilbrigðisráðuneytinu.

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis hlaut verðlaun fyrir bæði mynd ársins og fréttamynd ársins 2021. Mynd ársins er af eldgosinu í Geldingadölum en dómnefndin segir myndina „ ótrúlega kraftmikla og fangi anda liðins árs en minni um leið á ógnir sem steðja að náttúrunni og gefa engin grið.“  Fréttamynd ársins er skemmtilegt augnablik á tröppum Bessastaða þar sem nýmynduð ríkisstjórn gerir sig klára fyrir formlega myndatöku. Dómnefndin segir meðal annars: „Myndin er á vissan hátt lýsandi fyrir þá ringulreið sem hefur átt sér stað í samfélaginu og pólitíkinni og um leið minnir hún á að stjórnmálafólkið er fyrst og fremst einmitt það, fólk.“

Þá voru þau Birgir Olgeirsson, Nadine Guðrún Yaghi og Erla Björg Gunnarsdóttir tilnefnd til rannsóknarblaðamennsku ársins fyrir fréttaskýringaþættina Kompás og Berghildur Erla Bernharðsdóttir var tilnefnd til blaðamannaverðlauna ársins fyrir umfjöllun um barnaheimilið á Hjalteyri þar sem upplýst var um grimmilegt ofbeldi.

Við erum rífandi montin af okkar fólki en þetta kemur okkur auðvitað ekkert á óvart. Fréttafólk Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar brennur fyrir starfinu og skilar frábærri fréttamennsku hvern einasta dag. Þessi fagmennska og metnaður hefur skilað okkur öflugum miðlum.