Fara á efnissvæði
Til baka

DÚNDUR HAUSTDAGSKRÁ FRAMUNDAN Á STÖÐ 2

þriðjudagur, 21. september 2021
DÚNDUR HAUSTDAGSKRÁ FRAMUNDAN Á STÖÐ 2

Haustið leggst frábærlega í okkur og appelsínugular viðvaranir trufla okkur ekki neitt því það er dúndur haustdagskrá framundan á Stöð 2.  

Afbrigði

Afbrigði er ný og spennandi þáttaröð þar sem skyggnst er inn í leyndardómsfulla afkima samfélagsins sem ekki hefur verið fjallað um fyrr en nú. Ingileif Friðriksdóttir spyr fólk sem stundar óhefðbundinn lífsstíl út í hluti sem alla langar að vita enginn þorir að spyrja að. Hvers vegna stíga þau út fyrir kassann og hvernig tekur samfélagið því? Þættirnir hefjast 29. september og fyrir þá sem eru að springa úr forvitni eins og við er hér smá kitla

Um land allt

Kristján Már Unnarsson snýr aftur með hina stórskemmtilegu þætti Um land allt þar sem hann tekur púlsinn á mannlífinu utan höfuðborgarinnar. Hvað er að frétta úr Bíldudal eða Borgarfirði eystri? Kristján nær einstöku sambandi við viðmælendur sína og segir skemmtilega frá. Þættirnir hefjast þann 18. október.

Stóra sviðið

Og haldið ykkur nú fast því þann 22. október hefst splunkunýr skemmtiþáttur með Audda og Steinda þar sem öllu verður tjaldað til. Þessir vinsælustu skemmtikraftar landsins skora hvorn annan á hólm í hverja þrautina á fætur annarri og helstu stjörnur landsins leggja þeim lið. Þeir þurfa að vinna hylli áhorfenda sem kjósa sigurvegara í hverjum þætti en áskoranirnar geta verið allt frá kvikmyndagerð yfir í rómantík. Til að allt fari ekki úr böndunum mun leikkonan Steinunn Ólína halda um stjórnartaumana en Stóra Sviðið markar endurkomu hennar í sjónvarpi eftir tuttugu ára fjarveru. Frábær fjölskylduskemmtun.

Ummerki

Áður óbirtar upplýsingar í rannsóknum íslenskra sakamála eru dregnar upp á yfirborðið í þáttunum Ummerki. Sunna Karen Sigurþórsdóttir kafar ofan í lögregluskýrslur og fer yfir öll stig sakamáls frá fyrstu viðbrögðum lögreglu til dómsuppkvaðningar í réttarsal. Ummerki eru afar vandaðir og áhugaverðir þættir sem halda áhorfendum límdum við skjáinn. Sýningar hefjast þann 24. október.

Framkoma

Hvernig er að vera frægur í litlu landi þar sem allir hafa skoðun á þér? Hvernig dílar fræga fólkið við dóm samfélagsins og hvað fer í gegnum huga þess rétt áður en það stígur á svið? Fannar Sveinsson fylgir þjóðþekktum einstaklingum eftir í þáttunum Framkoma og leyfir áhorfendum að skyggnast innfyrir frægðarljómann sem sveipar stjörnurnar. Sýningar hefjast þann 31. október.

Fleiri flunkunýjar og spennandi þáttaraðir eru síðan væntanlegar í vetur.