Fara á efnissvæði
Til baka

EDDUVERÐLAUN Í HÚSI

þriðjudagur, 5. október 2021
EDDUVERÐLAUN Í HÚSI

Við fögnum frábærum árangri Stöðvar 2 og Vísis á Eddunni um liðna helgi!

Þáttaröðin RAX Augnablik var valin Menningarþáttur ársins en þau Ragnar Axelsson, Jón Grétar Gissurarson, Sylvía Rut Sigfúsdóttir, Friðrik Friðriksson, Tinni Sveinsson og Einar Geir Ingvarsson  eiga heiðurinn af þeim. Í þessum vönduðu og áhugaverðu þáttum segir RAX sögurnar á bak við ljósmyndir sínar. Ferill RAX spannar yfir fjóra áratugi og eftir hann liggja þúsundir frétta- og mannlífsljósmynda þar sem augnablikið er fangað á einstakan hátt. Bak við hverja einustu ljósmynd er saga.

Steinda Con var valið Sjónvarpsefni ársins en í þáttunum heimsækir Steindi Jr. margar af óvenjulegustu og furðulegustu ráðstefnum heims ásamt gesti. Þættirnir eru svakalega skemmtilegir og áhorfendur fá frábæra innsýn í jaðarsenuna því Steindi tekur fullan þátt og nær einstöku sambandi við ráðstefnugesti.  Kristín Andrea Þórðardóttir hjá Skot framleiddi þættina, Ágúst Jakobsson tók upp og Ragnar Hansson leikstýrði.

Alls fékk Stöð 2 sextán tilnefningar til Edduverðlaunanna í ár. Það er algjörlega frábær árangur og til marks um það metnaðarfulla starf sem unnið er á miðlunum okkar. Við erum að rifna úr stolti af okkar fólki.