Fara á efnissvæði
Til baka

Framundan á Stöð 2 í mars og apríl

miðvikudagur, 24. febrúar 2021
Framundan á Stöð 2 í mars og apríl

Blindur Bakstur - hefst laugardaginn 13. mars

Í þessum nýju þáttum fær Eva Laufey til sín góða gesti til að keppa í kökubakstri. Fyrirkomulagið er þannig að Eva er með ákveðna uppskrift sem keppendur þurfa að fylgja frá A – Ö í blindni. Eldhúsin sem keppendur nota eru stúkuð af þannig að þeir sjá ekkert nema það sem er í þeirra eldhúsi/hólfi. Keppendur hafa hráefnin fyrir framan sig og þurfa að fylgja Evu á meðan hún bakar í einu hólfinu, þá reynir á að þekkja hráefnin og nýta tímann sem best.

Keppnin skiptist í þrjú stig eða skref:
• Grunnur að kökunni
• Fylling/krem
• Skraut/samsetning

Svo er bara að sjá hvort keppendur nái að fylgjast með í blindni. Það verður áhugavert að sjá útkomuna.

Páskabíó - hefst föstudaginn 19. mars

Það verða sannkallaðir bíómynda-páskar á Stöð 2. Fátt er notalegra en að setjast fyrir framan
sjónvarpið og horfa á góða bíómynd. Stöð 2 ætlar svo sannarlega að sjá til þess að áhorfendur eigi góðar stundir yfir páskahátíðina og bjóða upp á frábæra bíómyndadagskrá.

Heimsókn - hefst miðvikudaginn 31. Mars

Ný þáttaröð með Sindra Sindrasyni en fyrsti þátturinn verður númer 150 í röðinni hvorki meira né minna. Eins og áður sjáum við hús tekin í gegn, förum til útlanda og hittum skemmtilegt fólk sem segir frá fallegum heimilum sínum bæði stórum og smáum. Ekki missa af þessum vinsælu þáttum með Sindra Sindrasyni á Stöð 2.

Vegferð - hefst sunnudaginn 4. apríl

Vegferðin fylgir þeim Víkingi og Ólafi Darra á ferðalagi um Vestfjarðahringinn. Fljótlega kemur í ljós að lítið sem ekkert er undirbúið, ekki einu sinni næturgisting er örugg. Í staðinn fyrir að verða slétt og felld vinaferð full af kærleika, breytist þessi leiðangur í uppgjör þar sem áralangt samband tveggja manna er brotið til mergjar og í lokin hvílir framtíð þeirra og áframhaldandi vinskapur á erfiðum ákvörðunum.

Skreytum hús - hefst miðvikudaginn 7. apríl

Skreytum hús er lífsstílsþáttaröð með Soffíu Dögg Garðarsdóttur sem fær til sín ólíka þátttakendur sem allir vilja breyta og fegra heimili sín. Í þessum þáttum er farið um víðan völl, sýndar sniðugar lausnir til breytinga, kíkt í verslanir ásamt persónulegri umfjöllun. Í lokin sjáum við svo skemmtilega útkomu hjá þátttakendum. Soffía Dögg stofnaði skreytumhus.is árið 2010 og heldur einnig úti facebooksíðunni Skreytum hús en þar eru ríflega 70 þúsund fylgjendur.

Þættirnir eru sýndir á Vísi og á Stöð 2+.

Dagbók Urriða - hefst fimmtudaginn 8. Apríl

Ólafur Tómas Guðbjartsson er stjórnandi þáttarins og fer hann með áhorfendur í ferðalag um
landið okkar og töfraheim silungsveiði á flugu. Heimsótt eru fjölmörg veiðisvæði og snert á
grunnatriðum veiðinnar sem og flóknari pælingum um klak skordýra í fleiri þáttum í veiðinni.
Dagbók Urriða er nýr þáttur sem framleiddur var sumarið 2020 og verður sýndur í vor á Stöð 2

Skítamix - hefst sunnudaginn 11. apríl

Ný og skemmtileg þáttaröð þar sem Halldór Halldórsson heimsækir allskyns ólíka Íslendinga sem allir eiga þó það sameiginlegt að þurfa hjálp við að dytta að einhverju á heimili sínu. Halldór sækir þetta fólk heim, vopnaður hamri, sög og forvitni.

Gestir Halldórs verða: Emmsjé Gauti, Katrín Halldóra, Stjörnu Sævar, Kristín Péturs og Högni Egilsson.