
Sjónvarpsstöðin Sýn, áður Stöð 2, verður í opinni dagskrá fyrir alla landsmenn frá og með 1. ágúst næstkomandi. Áskrift að Sýn+ veitir notendum forskot á allt efni stöðvarinnar.
Í tilkynningu frá Sýn segir að með þessu sé nýr kafli skrifaður í íslenskri sjónvarpssögu og næsta skref tekið í vegferðinni sem hófst með samruna Vodafone og Stöðvar 2 undir merkjum Sýnar.
„Við erum jafnframt að einfalda pakkaframboð Sýnar til að gera aðgang greiðari fyrir áskrifendur. Á næstu dögum og vikum munum við vera í sambandi við áskrifendur og kynna nýtt pakkaframboð Sýnar,“ segir í tilkynningunni.
Allt efni birtist fyrst á Sýn+
Á sama tíma sé sjónvarpsstöðin Sýn að gera áherslubreytingar sem feli í sér að allt efni birtist fyrst á streymisveitunni Sýn+, einni stærstu streymisveitu landsins með hundruð innlendra og erlendra titla
„Áskrifendur Sýnar+ munu njóta aukins sveigjanleika og aðgangs að sjónvarpsefni áður en það birtist í línulegri dagskrá. Áskrifendur geta hámhorft hvar og hvenær sem er, án auglýsinga inni í þáttum. Þá verður valið sjónvarpsefni eingöngu aðgengilegt í gegnum Sýn+,“ segir í tilkynningunni.
Kvöldfréttir og Ísland í dag verða að sjálfsögðu áfram á sínum stað í opinni dagskrá á sjónvarpsstöðinni Sýn.